Siðareglur
Megin hlutverk og markmið Mílu er að tryggja fólki og fyrirtækjum á Íslandi fjarskiptaþjónustu í fremstu röð. Við erum meðvituð um mikilvægi starfsemi félagins og samhent um að standa undir þeirri ábyrgð að veita yfirburðaþjónustu með fyllsta öryggi. Okkur er annt um gott orðspor Mílu og leggjum við okkur fram við að starfshættir okkar viðhaldi því. Af þessari ástæðu höfum við sett okkur siðareglur þessar sem gilda um alla starfsemi Mílu, starfsmenn, stjórn sem og verktaka og aðra sem kunna að sinna verkefnum í samstarfi með eða fyrir hönd Mílu (hér eftir „við“):
1. Tilgangur
Siðareglum Mílu er ætlað að draga fram gildi og viðmið sem við styðjumst við í daglegri starfsemi og er ætlað að vera vegvísir í viðleitni okkar til að gæta enn betur hagsmuna og öryggis viðskiptavina Mílu, starfsmanna og annarra sem eiga hagsmuna að gæta í samskiptum við fyrirtækið og starfsmenn þess. Enn fremur er tilgangur reglnanna að tryggja gott starfsumhverfi og stuðla að góðum starfsháttum. Reglunum er jafnframt ætlað að draga úr áhættu, einkum rekstar- og orðsporsáhættu, sem getur haft skaðleg áhrif á fyrirtækið.
2. Samfélagið og umhverfið
Við förum eftir öllum lögum, reglum og stjórnvaldsákvörðunum sem lúta að starfsemi Mílu og leggjum okkur fram við að vera ábyrgir og traustir þátttakendur í samfélaginu. Við virðum mannréttindi allra og göngum fram með góðu fordæmi. Við komum fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur.
Við sýnum umhverfinu virðingu og því leggjum við okkur fram um að valda sem minnstum skaða á umhverfinu með starfsemi félagsins og fylgjum viðurkenndum umhverfis-, gæða-, öryggis- og heilsuverndarstöðlum.
3. Viðskiptavinir
Við berum virðingu fyrir viðskiptavinunum og hagsmunum þeirra og er það okkur forgangsmál að veita þeim senn örugg fjarskipti og framúrskarandi þjónustu á samkeppnishæfu verði. Eins virðum við birgja okkar og samstarfsaðila og metum þýðingarmikið hlutverk þeirra í virðiskeðjunni.
4. Starfsfólk
Við leggjum mikla áherslu á að tryggja bæði öryggi og vellíðan starfsfólks Mílu. Þetta gerum við með góðum aðbúnaði, réttri þjálfun og fræðslu. Við fylgjum öllum viðurkenndum öryggis- og heilsuverndarreglum. Við sýnum umburðarlyndi og kærleika og tökum tillit til ólíkra sjónarmiða og skoðana. Við höfum jafnrétti að leiðarljósi og erum málefnaleg, sanngjörn og líðum hvorki óréttlæti, mismunun, einelti né áreitni af nokkrum toga.
Við leggjum okkur fram um að tileinka okkur viðmið og verklag um sjálfbærni og takmörkun á sóun og megnun. Við leitumst við að leysa úr verkefnum okkar með þessi viðmið að leiðarljósi og sýnum góða umgengni þar sem við sinnum verkefnum okkar í þágu félagsins. Við gætum að tækjum, búnaði og öðrum eignum með það að markmiði að þau endist sem best og séu eingöngu nýtt í þágu verkefna félagsins.
5. Stjórnvöld / eftirlitsstofnanir
Við berum virðingu fyrir hlutverki stjórnvalda og eftirlitsstofnana og komum fram af heilindum og fagmennsku í samskiptum okkar við alla slíka aðila og þá sem fyrir þá starfa.
6. Hagsmunaárekstrar
Við erum meðvituð um hættuna sem getur skapast af hagsmunaárekstrum og leggjum okkur því fram við að tryggja að ekki sé hægt að draga í efa fagmennsku okkar og heilindi. Þess vegna fylgjum við reglunni um armslengd þegar kemur að okkar eigin viðskiptum eða viðskiptum aðila okkur tengdum við fyrirtækið.
Við erum meðvituð um að koma í veg fyrir hvers konar spillingu og mútur og þiggjum því ekki gjafir eða boð sem ætla má að hafi þann tilgang að hafa áhrif á viðskiptalegar ákvarðanir okkar fyrir fyrirtækið eða geta dregið óhlutdrægni okkar í efa. Þó er okkur heimilt eða gefa og þiggja boð og gjafir sem telja má hæfilegar og viðeigandi í tengslum við lögmæt viðskipti. Við þiggjum þó aldrei handbært fé. Við tilkynnum allar gjafir og boð til okkar næsta framkvæmdastjóra.
Ef vafi leikur á því hvort tiltekin gjöf, ákvörðun eða verknaður feli í sér mútur eða spillingu skal bera álitaefnið undir lögfræðing Mílu.
7. Trúnaður
Við virðum þagnarskyldu um þær trúnaðarupplýsingar, sem við kunnum að fá aðgang að í störfum okkar og erum meðvituð um að sú þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum. Við nýtum okkur ekki trúnaðarupplýsingar til ávinnings, hvorki fyrir okkur sjálf né aðra.
8. Tilkynningaskylda
Við berum sjálf ábyrgð á aðgerðum okkar sem og aðgerðarleysi. Við erum meðvituð um að okkur ber skylda til þess að tilkynna brot á siðareglum þessum, sem og öðrum lögum og reglum sem gilda um okkur í starfi til annað hvort mannauðsstjóra eða lögfræðings Mílu.
9. Viðurlög
Brot gegn reglum þessum verður tekin fyrir í samræmi við verklagsreglur félagsins. Fyrstu brot á þessum reglum, eða öðrum viðeigandi lögum og reglum, munu leiða að lágmarki til skriflegrar viðvörunar. Hins vegar geta alvarleg eða ítrekuð brot, þar á meðal þau sem tilgreind eru í ráðningarsamningum, leitt til uppsagnar án frekari fyrirvara.
Siðareglur þessar eru samþykkar af stjórn Mílu 4. apríl 2024
Siðareglur Mílu - VIR-090 - Útgáfa 2.0 - 04.04.2024-