Ísland fjórða hraðasta land heims

Ísland hefur fært sig upp um eitt sæti í alþjóðlegum netmælingum á Interneti um fastlínu hjá Speedtest.net og er nú í fjórða sæti á heimsvísu. Speedtest.net bjóða upp á netmælingar um víða veröld og hafa góða yfirsýn á getu þjóða. Singapore vermir nú fyrsta sætið með 345,33 megabita á sekúndu nethraða um fastlínu. Þar eru framsýn fyrirtæki sem fóru snemma í 10 gígabita tengingar til heimila og atvinnulífsins, en Míla kynnti fyrst fjarskiptainnviðafyrirtækja á Íslandi 10x tengingar sínar í ágúst árið 2023. 10x tengingar bjóða upp á nethraða vel umfram einn gígabita á sekúndu og fjarlægja flöskuhálsa á Internetinu sem gleður óþolinmótt fólk.
Framúrskarandi fjarskiptainnviðir
Samkvæmt mælingum Speedtest eru Íslendingar að mælast á 295,55 megabitum á sekúndu og eru hraðari þjóðirnar flest borgríki eða með talsvert þéttari byggðir. Næsta Norðurland er í áttunda sæti en það er Danmörk með 254,75 megabita. Meðalhraði um víða veröld er 98,31 megabitar og svartími er 9 millisekúndur, en svartími á Íslandi er þrefalt minni eða 3 millisekúndur. Hraðaaukningin sem tengingar umfram einn gígabita á sekúndu skila kemur einmitt á hárréttum tíma en ný kynslóð þráðlausra neta, Wi-Fi 7, kemur hraða innan heimila og vinnustaða á sama stig og 10x tengingarnar. Wi-Fi 7 er nú að ryðja sér til rúms og er nú fáanlegt í nýjum símum, fartölvum og netbeinum.
Nethraði mikilvægur þáttur grunnstoða
Með þessu hefur Ísland styrkt stöðu sína sem eitt af fremstu löndum heims þegar kemur að nethraða og aðgengi að Internetinu. Aðgengi að háhraðanetum er til fyrirmyndar hérlendis og er talið að um 97,5% íbúa séu nú með aðgang að ljósleiðara alla leið sem er það besta í Evrópu. Þetta hefur gert Ísland að leiðandi landi í fjarskiptum og tryggt að íbúar landsins njóti framúrskarandi lífsgæða. Þessi árangur hefur haft jákvæð áhrif á samfélagið í heild sinni. Með betri nethraða og aðgengi er Ísland betur tengt við alþjóðasamfélagið, sem stuðlar að aukinni samkeppnishæfni og nýsköpun. Atvinnulífið og heimili njóta góðs af hraðari og áreiðanlegri tengingum, sem auðveldar samskipti, viðskipti og tækniþróun. Með áframhaldandi fjárfestingu í fjarskiptainnviðum og tækniþróun er Ísland vel í stakk búið til að halda áfram að bæta stöðu sína á heimsvísu. Þar sem markaðsbrestur hefur átt sér stað hafa stjórnvöld staðið sig vel í að styrkja uppbyggingu ljósleiðara með það markmið að tengja alla landsmenn við háhraðanet.