Míla á neyðarstigi vegna eldgoss í Sundhnjúkagígaröð - Nánar
Beint í efni

Farsælt ár fjarskipta

24. janúar 2025
Ljósmynd af Erik Figueras Torras, forstjóra Mílu

Árið 2024 var farsælt íslenskum fjarskiptainnviðum. Í ársbyrjun var kvöðum létt af Mílu á svæðum þar sem 80 prósent landsmanna búa, sem opnar á ný tækifæri fyrir fyrirtækið, viðskiptavini og neytendur. Nú keppir Míla loks á grundvelli jöfnuðar við samkeppnisaðila, sem hefur ríkan markaðsstyrk á höfuðborgarsvæðinu.

Á síðasta ári heimsóttum við yfir tíu þúsund heimili, stofnanir og fyrirtæki til að tengja við ljósleiðara Mílu. Viðtökur fólks við uppsetningarteymunum lyftu brún forstjórans og enn rignir inn hrósi og þökkum sakir fagmennsku Mílu.

Landsbyggðin líka

Okkar áherslur liggja ekki eingöngu á suðvesturhorni landsins. Míla er á hraðferð í uppbyggingu fjarskiptainnviða á landinu öllu. Annað árið í röð fjárfesti Míla fyrir tæplega 5 milljarða og mikill meiri hluti þeirrar fjárfestingar var úti á landi. 

Ljósleiðarastrengir voru lagðir langan veg um allt land til að tryggja varaleiðir sem auka öryggi stafrænna innviða Íslands.Þá er starfsfólk okkar á hraðaferð um allt land til að auka nethraða til heimila og atvinnulífs með 10x uppfærslum á aðgangsbúnaði sem margfaldar upplifun og stórbætir aðgang að neti. 

Til að tryggja aðgang að álagsþolnum háhraðanetum fyrir íbúa samdi Míla við nokkur sveitarfélög um fjárfestingar í rekstri fjarskiptainnviða. Sveitarfélögin losnuðu þannig undan ábyrgð á rekstri fjarskiptakerfa, sem gæti orðið þeim íþyngjandi, og að þeirra sögn ekki meginverkefni.

Ísland ljóstengt

Verðugt verkefni er að tengja öll lögbýli landsins við ljósleiðara. Fram til þessa hafa stjórnvöld stutt uppbyggingu fjarskiptainnviða þar sem markaðsforsendur skortir. Sérstakur fjarskiptasjóður sem stjórnvöld hafa starfrækt frá árinu 2006 hefur stuðlað að aukinni samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta. Fyrirhugað er að leggja þennan sjóð niður þegar síðustu íslensku heimilin hafa tengst. Þá munu 25 sveitarfélög fá ljósleiðara inn á öll heimili og hægt verður að kalla okkur gígabitaþjóð. 

Þó ástandið sé gott, bíða mikilvæg verkefni. Enn eru 15 sveitarfélög sem eru eintengd við umheiminn rofni sambandið er engin varaleið. Í annað sinn á stuttum tíma rofnar strengur vegna vatnavaxta, þar sem klakabiti nær upp að öðrum tveggja staura, sem heldur uppi sambandi Skagastrandar við umheiminn. Öll fjarskiptaþjónusta varð óvirk, símasambandslaust, og hvorki nettenging né Tetra neyðarsímakerfi. Þetta er að sjálfsögðu óásættanlegt fyrir íbúa. Við þessu þarf samfélagið að bregðast en markaðsbrestur veldur að fjarskiptafélög sjá sér ekki hag í því að tvítengja þessa staði. Hér er aðkoma stjórnvalda nauðsyn svo auka megi öryggi íbúa og samfélaga með styrkra fjarskiptaneti.

Sólarlag kopars og upprás 10x og 5G

Fleiri áfangar náðust hjá Mílu á árinu. Með því að tengja 6 sveitarfélög við ljósleiðara varð kleift að fasa út gömul koparkerfi. Rekstur þeirra er kostnaðarsamur, býður umtalsvert minni nethraða og skilur eftir sig mun stærra umhverfisspor. Með því að fasa þau út getur Míla einbeitt sér að innleiðingu 10x ljósleiðaravettvangsins, uppfært heildargetu bylgjulengdarkerfa sem mynda grunn fjarskiptakerfa okkar og leið að nýjum 5G farsímastöðum.

Á árinu náði Míla til næstum 90 prósent íbúa með 5G farsímatækni. Settir voru upp 35 nýjar 4G farsímastöðvar og 45 nýjar 5G stöðvar. Nú býður Míla næstum 700 farsímastöðvar víðs vegar um land, þar af eru 40 þeirra samnýttar af nokkrum farsímafyrirtækjum. 

Ekki alltaf blíðan

Rekstur fjarskiptainnviða kallar á vökult starfsfólk. Starfsmenn Mílu eru meðvitaðir um eigin samfélagsábyrgð. Áskoranirnar voru margar á árinu af ýmsum toga aðallega sakir náttúru: Illveður, eld-eða jarðvirkni. Ég horfði af stolti á árinu hvernig starfsfólk Mílu vann á Reykjanessvæðinu til að greiða fyrir öryggis- og björgunaraðgerðum vegna eldfjallavirkni. Góð fjarskipti gera Ísland að betri og öruggari stað.

Og stundum herjar röð slæmra atburða. Það var raunin í október þegar rafmagnslaust varð á aðalsvæði Mílu á Akureyri. Það olli alvarlegum þjónustutruflunum í of margar mínútur. Aðgerðum til úrbóta var hrundið af stað samdægurs og fyrirtækið heldur áfram að fjárfesta í endurbótum til að lágmarka líkur á endurtekningu.

Árvekni nýrra tíma

Íslenskur fjarskiptamarkaður er kvikur og í stöðugum vexti. Ísland er í dag vel nettengt og í fararbroddi þjóða þegar kemur að hlutfalli ljósleiðaratengdra heimila og nethraða.

Við viljum áfram vera í fararbroddi þjóða á sviði fjarskipta. Þau spila æ stærra hlutverk í öflugri atvinnustarfssemi og lífskjörum þjóðarinnar. Það þýðir árvekni gagnvart nýrri framtíðartækni og fjárfestingum í tækni og þekkingu starfsfólks. - Þetta ár verður ekki síðra en það sem nú er gengið.

Erik Figueras Torras, forstjóri Mílu