31. október 2019

Tilkynning frá Mílu-Rangfærslur GR leiðréttar

Vegna umfjöllunar Gagnaveitu Reykjavíkur um niðurtöku á búnaði og ásakanir um meint brot telur Míla nauðsynlegt að leiðrétta rangfærslur og blekkingar GR.

Eins og komið hefur fram í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS), og staðfest er af úrskurðarnefnd fjarskipta og póstmála, hefur GR gengið frá þúsundum tenginga í húsum á höfuðborgarsvæðinu með ólögmætum hætti. Undanfarin ár hefur Míla verið að greiða úr þessum ólöglegu tengingum GR. Í þeirri vinnu hefur mat tæknimanna Mílu um hvernig skal standa að verki í örfá skipti ekki farið saman við mat PFS.

Þau mál sem PFS hefur úrskurðað um snúast um tengingar við inntak ljósleiðara í kjallara fjölbýlishúsa. Þær niðurstöður hefur GR nú tekið og tengt í tilkynningu sinni til fjölmiðla við umfjöllun um ljósleiðarabox sem eru inni í íbúð hjá notendum. Hið rétta er þó að engin mál sem varða box inni í íbúðum hafa verið til umfjöllunar hjá PFS.

Blekking GR felst í að láta notendur halda að ákvörðun PFS, sem fjallar um frágang í inntaki í kjallara, eigi á einhvern hátt líka við um box inni í íbúð notanda. Þessi vísvitandi rangfærsla er til þess fallin að kasta rýrð á vörumerki Mílu sem samkeppnisaðila GR og Míla mun senda formlega kvörtun til Neytendastofu.

Þess ber geta að frá 2014 hefur Neytendastofa í þrígang úrskurðað GR brotlegt gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu vegna rangfærslna félagsins um samkeppnisaðila. Síðast var félagið sektað um hálfa milljón króna vegna ummæla framkvæmdastjóra félagsins árið 2017. Slík framganga af hálfu opinbers félags er ámælisverð.

Þar sem til staðar eru ólöglegar lagnir sem GR hefur lagt verður ekki hjá því komist að aftengja ljósleiðarabox inni hjá notendum, annars er ekki hægt að tengja viðkomandi. Einnig er sumstaðar ekki pláss fyrir tvö box og því þarf að taka annað niður. Þetta er óháð því hver á boxið sem fyrir er, hvort sem það er box Mílu eða GR. Staðan er því sú að þegar aðstæður útheimta hefur GR tekið niður box Mílu rétt eins og Míla hefur tekið niður box GR. Rétt er að taka fram að samkvæmt verðskrá GR kostar það notanda 15.580 kr. að fá GR til að taka niður boxið. Það kann að vera hvati fyrir íbúðareigendur til að biðja fagmenn Mílu um að gera þetta enda hefur húseigandi rétt á að ákveða hvað er uppsett í hans íbúð. Míla mun ítreka fyrir starfsmönnum og samstarfsaðilum að taka ekki niður box annarra nema húseigandi óski þess sérstaklega.

Þá er full ástæða til þess að brýna fyrir húseigendum að hafa varann á þegar kemur að frágangi innanhússlagna á vegum GR. Mikilvægt er að krefjast þess að frágangur GR sé í samræmi við reglur því húseigandinn ber ábyrgð á lögninni og mun þurfa að bera kostnaðinn ef þarf að lagfæra hana.