Framtíð Ljósveitunnar
Hröð þróun á xDSL tækni
Míla hefur hafið uppfærslu á ljósveitukerfi sínu sem eykur internethraða úr 50 Mb/s í 100 Mb/s. Þegar er lokið við að uppfæra götuskápa í Reykjavík, Seltjarnarnesi og Kópavogi í 100 Mb/s
Um 85 þúsund heimili á höfuðborgarsvæðinu hafa nú möguleika á að tengjast ljósveitukerfi Mílu. Á hefðbundinni ljósveitutengingu fá heimilin um 50 Mb/s internethraða til heimilis og 25 Mb/s hraða frá heimili, auk þess sem 20 Mb/s bætast við auglýstan internethraða, sem eru frátekin fyrir sjónvarpsflutning. Nú geta nær öll heimili á höfuðborgarsvæðinu nálgast þjónustu um ljósveitukerfið hjá sínum þjónustuaðila.
Uppfærsla í 100 Mb/s langt komin
Nú hefur verið hafist handa við uppfærslu á ljósveitukerfi Mílu sem eykur internethraðann úr 50 Mb/s í 100 Mb/s. Samkvæmt Jóni R. Kristjánssyni framkvæmdastjóra Mílu, þá hafa starfsmenn Mílu þegar lokið við að uppfæra götuskápa í Reykjavík, Seltjarnarnesi og Kópavogi í 100 Mb/s og er áætlað að uppfærslu verði lokð í öllum bæjarfélögum á höfuðborgarsvæðinu á næstu vikum. Breytingin verður veruleg, þó fæstir muni taka eftir henni, þar sem notkunarþörf heimila almennt er mun minni en 100 Mb/s (sjá notkunartöflu hér fyrir neðan). Þessi þjónusta er í prufu hjá Þjónustuaðilum og verður aðgengileg hjá þeim á næstu vikum.
“Það er þó mikilvægt að átta sig á því að hámarkshraði næst aðeins þegar tækin eru beintengd. Tölva á þráðlausu neti nær aldrei sama hraða og beintengt tölva og þá skiptir engu máli hvernig nettengingin er; ljósveita eða ljósleiðari” segir Jón.
Við þessa uppfærslu á ljósveitukerfi Mílu er notuð nýjasta tækni, sú sama og notuð er í helstu borgum Evrópu. Kallast þessi tækni vigrun (e. vectoring) sem felst í að eyða svokölluðum milliheyrslum sem geta valdið truflunum á samböndum. Með því að eyða þessum milliheyrslum fæst meiri hraði, eða um eða yfir 100 Mb/s.
Þróun á xDSL tækni er mjög hröð í heiminum og mikill áhugi er fyrir því að þróa tækni á fyrirliggjandi kerfum en því fylgir mikil hagræðing. Næsta skref í þróun á xDSL tækni kallast G.Fast. Með þeirri tækni verður hægt að bjóða upp á allt að 1 Gb/s tengingar og er gert ráð fyrir því að fyrstu borgirnar í heiminum muni hefja tilraunauppsetningar á G.Fast fyrir lok þessa árs. “1000 Mb/s eru því rétt handan við hornið, miðað við þann hraða sem er á þróun xDSL tækni í dag” segir Jón.
Þróun xDSL tækni
Ljósleiðari til heimila
Míla leggur ljósleiðara í nýjum hverfum og þar sem vegalengdir eru langar. Einnig leggur Míla ljósleiðaraheimtaugar í öll ný fjölbýlishús sem eru reist, hvort sem það er í nýjum hverfum eða grónum. Gegnum árin hefur Míla víða lagt ljósleiðara í hús þó hann sé ekki tengdur, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Míla mun halda áfram og tengja eins og skynsamlegt þykir á hverjum tíma.
Tengitæknin skiptir ekki máli
Hvort sem tengitæknin er ljósleiðari, ljósveita, örbylgja eða önnur tengitækni þá skiptir það í raun ekki máli hvað varðar þjónustu sem möguleg er ofan á kerfin. “Sem dæmi, ef þú ert með ljósleiðara í dag eru allar líkur á því að hann sé að veita 100 Mb/s, rétt eins og ljósveitan. Þar sem háhraðanet er til staðar er flöskuhálsinn gjarnan endabúnaðurinn, og skiptir þá ekki máli hvort ljósleiðarinn endar í húskassa eða í götuskáp í næsta nágrenni” segir Jón.
Þarfir notenda fyrir bandvídd eru alltaf að breytast og mun Míla halda áfram að uppfæra og þróa sín kerfi og tengingar í samræmi við þær breytingar sem verða á þörfum notenda um aukna bandvídd.
Notkunartafla: |
|
---|---|
Hefðbundinn netleikur s.s. Warkraft, Fifa |
0,5 Mb/s |
Tónlistarstreymi - Spotify, tonlist.is |
0.5 Mb/s |
Myndbandsstreymi - YouTube, Netflix, Hulu |
5,0 Mb/s |
Sjónvarpsstreymi - venjulegt |
4,5 Mb/s |
Sjónvarpsstreymi - háskerpu |
6,0 Mb/s |
Annað netvafur |
mælist varla |